Saga til næsta bæjar er saga líðandi stundar, lýsing augnabliks í íslenskri vöruhönnun og innsýn í síðasta áratug, barnæsku fagsins á Íslandi á umbrotatímum. Við skyggnumst inn í hugmyndaheim valdra hönnuða þessa tímabils, samstarf þeirra þvert á greinar og samtal við samfélög. Tilraunir og leit að nýjum leiðum taka á sig ýmsar myndir í umhverfi án hefðbundins iðnaðar og jafnvel markaðar. Við hrífumst af fagurfræði og ljóðrænu yfirborðsins en undir niðri krauma draumar um betri heim og sannfæring um hönnun sem afl til raunverulegra breytinga.