opnun
27.09.202417:00

Örveruráheimilinu

Opnunin verður að sjálfsögðu með örveruívafi í mat og drykk en sýningin Örverur á heimilinu er hluti af sýningarröðinni Heimsókn á Hönnunarsafni Íslands. Hún leiðir okkur inn í samstarf mannfólks við þessar örsmáu félagsverur, sem er að finna í svo að segja öllum hornum heimilisins. Hún beinir kastljósinu að fjölbreyttri örveruflóru sem umlykur okkur og býr innra með okkur, því ólíka samstarfi sem við eigum við örverur í hversdeginum og er ætlað að hvetja fólk til frekara samstarfs við örverur dags daglega.
Örverur á heimilinu er ein af afurðum þverfaglega rannsóknarverkefnisins Samlífi manna og örvera í daglega lífinu undir stjórn dr. Valdimars Tr. Hafstein. Verkefnið, sem staðið hefur undanfarin þrjú ár, leiðir saman þjóðfræðinga, mannfræðinga, næringarfræðinga og líffræðinga frá Háskóla Íslands og Matís.
Sýningarstjóri er Ragnheiður Maísól Sturludóttir, en sýningarhönnun og textagerð er unnin í samstarfi við Elínu Örnu Kristjánsdóttur og Ingibjörgu Sædísi. Sýningin er einnig unnin í samstarfi við starfsfólk Hönnunarsafns Íslands, Melta, Biopol, Ístex, Textílmiðstöð Íslands, Elin Margot, Matís, Þjóðminjasafnið og Tæknisetrið.