Sunnudaginn 22. janúar mun Harpa Þórsdóttir forstöðumaður safnsins bjóða upp á leiðsögn um sýningar Hönnunarsafnsins. Leiðsögnin hefst á sýningunni Á pappír þar sem sýnt er úrval teikninga og skissa úr safneign safnsins og úr einkasöfnum.
Verkin gefa mynd af vinnubrögðum hönnuða og myndlistarmanna við gerð umbúða, auglýsinga, bókakápa og húsgagna- og innanhússhönnunar allt frá þriðja áratug síðustu aldar fram á þann sjöunda og mun Harpa meðal annars segja frá verkum Lothar Grund sem hannaði ýmsa innviði og markaðsefni fyrir Hótel Sögu fyrir opnun þess árið 1962. Þeir sem eiga verk á sýningunni auk Lothars eru Kristín Þorkelsdóttir, Sverrir Haraldsson, Stefán Jónsson, Jón Kristinsson (Jóndi) og Jónas Sólmundsson.
Á sýningunni Geymilegir hlutir eru valdir munir úr safneign safnsins og mun Harpa segja frá áherslum safnsins á síðustu árum við innsöfnun á íslenskri hönnun til safnsins og rannsóknum á þessari sögu.
Verið velkomin.