Elsa Nielsen og Þóra Sigurbjörns spjalla um stóla

föstudagur, 24 mars, 2017 - 14:05
Elsa Nielsen og Þóra Sigurbjörns spjalla um stóla

Sunnudaginn 26. mars kynnir Elsa Nielsen samstarfsverkefnið #einnádag og nýjar vörur, veggspjald og gjafakort sem Hönnunarsafnið gefur út á HönnunarMars 2017. Sérfræðingur safnsins og sýningarstjóri sýningarinnar Stóll, Þóra Sigurbjörnsdóttir, mun varpa ljósi á sögu nokkurra stóla sem Elsa hefur teiknað. Grafíski hönnuðurinn Elsa Nielsen hefur getið sér gott orð fyrir teikningar sínar #einádag sem hún hefur birt á Instagrammi reglulega. Í tilefni af HönnunarMars 2017 leitaði Hönnunarsafnið eftir samstarfi við Elsu um að teikna hluti úr safneign safnsins. Stólasafnið varð fyrir valinu enda fjölbreyttur safnkostur og nokkuð dæmigerður í öllum hönnunarsöfnum. Elsa hóf leikinn á Safnanótt, þann 3. febrúar síðastliðinn og teiknar einn stól á dag í 28 daga eftir jafnmarga íslenska hönnuði. Stólarnir verða til sýnis á sýningunni Stóll og frumteikningar Elsu einnig. Í safnbúð verður til sölu veggspjald með stólunum 28 eftir Elsu og úrval gjafakorta með mynd af íslenskum stól. Ágóði af sölu þessara vara rennur til uppbyggingar safnkosts safnsins, sem felst í að kaupa íslenska hönnun af íslenskum hönnuðum. Léttar veitingar og tilboð á vörunni í safnbúð safnsins á meðan á kynningu stendur.