Sýningarlok og leiðsögn

föstudagur, 3 mars, 2017 - 09:40
Sýningarlok og leiðsögn

Á pappír - leiðsögn með sýningarstjórum í Hönnunarsafni Íslands 5. mars kl. 14,

Á sýningunni getur að líta úrval teikninga og skissa úr safneign safnsins og úr einkasöfnum. Pappírsverkin gefa  fjölbreytta mynd af vinnubrögðum hönnuða og myndlistarmanna við gerð umbúða, auglýsinga, bókakápa og húsgagna- og  innanhússhönnunar allt frá þriðja áratug síðustu aldar fram á þann sjöunda.

Mörg verkanna hafa ekki áður komið fyrir sjónir almennings, má þar sérstaklega geta teikninga Lothar Grund sem hannaði ýmsa innviði og markaðsefni fyrir Hótel Sögu fyrir opnun þess árið 1962. Grillið á Hótel Sögu og barinn í Súlnasal eru meðal verka Lothars. Einnig má sjá nokkurt úrval verka Stefáns Jónssonar auglýsingateiknara og arkitekts úr einkasafni fjölskyldunnar, bíóauglýsingar eftir Kristínu Þorkelsdóttur sem eru meðal fyrstu verkefna auglýsingaverkefna hennar, nokkrar Rafskinnur eftir Jónda, listilegar húsgagnateikningar frá námsárum Jónasar Sólmundssonar í Þýskalandi á 3. áratug síðustu aldar og ýmis hönnunarverkefni Sverris Haraldssonar myndlistarmanns frá þeim 2 árum sem hann starfaði sem hönnuður, um miðja síðustu öld. Þau verk eru úr nýlegri gjöf fjölskyldu Sverris til Hönnunarsafnsins.

Ástríður Magnúsdóttir og Harpa Þórsdóttir leiða gesti um sýninguna í léttu spjalli. Allir unnendur íslenskrar hönnunar- og listasögu eru hvattir til að láta sjá sig. Athugið að þetta er síðasti sýningardagur.

Verið velkomin.