Tilgangur sýningarinnar Sjálfsagðir hlutir í Hönnunarsafni Íslands var að kynna efni og sögu þekktra og oft klassískra hluta í hönnunarsögunni.

Nær allt sem við snertum hefur verið hannað á einhvern hátt. Á sýningunni  voru sýndir nokkrir af þeim hlutum sem við lítum á sem sjálfsagða í daglegu lífi og efnisvali þeirra gerð skil. Augnlinsur, tannstönglar, klósett og bréfaklemmur eru dæmi um hluti sem gegna allir á sinn hátt mikilvægu hlutverki og hafa jafnvel sannað gildi sitt sem „klassískir“ á þann hátt að endurnýjun eða endurhönnun virðist óþörf þegar við virðum þá fyrir okkur í dag.

Tækninýjungar, forvitni og útsjónarsemi einstaklinga hafa oftar en ekki haldist í hendur við að skapa eitthvað nýtt og óvenjulegt úr ýmsum hráefnum.

Hlutverk hönnuða er að einfalda líf okkar. Þeir endurbæta og þróa eldri hönnun með það að leiðarljósi að gera hana betri. Hönnuðir hanna verkfærin sem hjálpa okkur að leysa verkefni daglegs lífs. Gripirnir sem valdir voru á  sýninguna eiga sér oft á tíðum sögu sem kemur á óvart, þar sem tilviljun og hugmyndaauðgi eiga stóran þátt í að hluturinn verður til. Hönnun snýst ekki einungis um að leysa fyrirliggjandi vanda, stundum leysir hún úr vanda sem við vissum jafnvel ekki að væri til staðar, líkt og tannstöngullinn gerði á sínum tíma.

Tilgangur með þessum fræðslupakka í glæruformi er að vekja athygli á þeirri hönnun sem er í okkar nánasta umhverfi. Í skólastofunni eru dæmi um hluti sem teljast til hönnunarklassíkur en láta lítið yfir sér. Tillögur að verkefnum og vangaveltum fylgja glærunum. Það er í valdi hvers og eins hvort að öll verkefnin eru unnin. Best er að lesa glærurnar í gegn áður en þær eru nýttar til kennslu.