Ámundi Sigurðsson grafískur hönnuður mun ganga um yfirlitssýningu á verkum hans í fylgd Hörpu Þórsdóttur forstöðumanns og rifja upp sögur tengdar einstökum verkefnum. 

Á 30 ára ferli hefur Ámundi unnið við nánast öll þau verkefni sem grafískum hönnuðum eru falin við sjónræna miðla. Ámundi er af kynslóð grafískra hönnuða sem vann bæði fyrir og eftir eina mestu tæknibyltingu sinnar greinar, innkomu tölvunnar og grafískra forrita og stafrænnar þróunar í prentun.

Verk Ámunda sjást víða í umhverfi okkar. Þau eru mörg hver áberandi hvort sem þar er um að ræða bækur sem hann hefur sett upp og hannað eða firmamerki og auglýsingaherferðir stórfyrirtækja. Framlag Ámunda til íslensks sjónmenntaarfs er viðamikið og Ámundi hefur í gegnum tíðina hannað fyrir helstu tónlistarmenn landsins, svo sem Pál Óskar, Björgvin Halldórsson, Bubba, Stuðmenn og Ghostigital plötuumslög og plaköt.

Höfundarverk hans liggur að miklu leyti í þeim andstæðum sem hægt er að tengja togstreitunni við að vera undir valdi listagyðjunnar og að skapa grípandi myndmál. Áhrifarík samsuðan í verkum Ámunda verða þó á engan hátt skýrð út frá einum stíl eða með vísan í eina átt.

 

Mætið á sunnudag kl. 14:00, ef til vill verðið þið einhvers vísari varðandi Ámunda og 30 ára feril hans.