Gunnar Magnússon ´61-´78  og Hrafnhildur Arnardóttir, Á gráu svæði


Fimmtudaginn 21. apríl kl. 14 mun Harpa Þórsdóttir forstöðumaður ganga um sýningarnar í Hönnunarsafni Íslands með gestum. Sýningin á verkum Gunnars Magnússonar varpar ljósi á þá framúrskarandi hönnun sem við Íslendingar eigum og þann húsgagnaiðnað sem var ríkjandi á árum áður, en Gunnar er einn okkar afkastamesti innanhúss- og húsgagnahönnuður. Gunnar fór utan til náms í Danmörku á síðari hluta  6. áratugarins, þegar blómatími skandinavískrar hönnunar var ríkjandi og bera húsgögnin hans oft merki frumleika og snjallra lausna sem Gunnar leitaðist ávallt við að finna. Á sýningunni eru fjölbreytt húsgögn sem framleidd voru í áraraðir bæði fyrir íslensk og dönsk heimili, meðal annars verðlaunahúsgögnin Daily Mirror frá því snemma á ferli Gunnars og síðast en ekki síst hið eina sanna skákborð sem Spasskí og Fischer notuðu í einvígi aldarinnar árið 1972, en Gunnar hannaði einmitt það borð.


Sýningin Á gráu svæði er á verkum Hrafnhildar Arnardóttur sem hún hefur unnið í samstarfi við listamenn, stílista og hönnuði á síðustu tíu árum en Hrafnhildur hefur sem myndlistarmaður fært listsköpun sína inn á svið hönnunar með eftirtektarverðum hætti. Hrafnhildur hlaut nýlega hin virtu norrænu textílverðlaun fyrir verk sín en verðlaunin verða afhent í Svíþjóð síðar á þessu ári. Á sýningunni í Hönnunarsafninu getur að líta bæði fatnað og einstaka hluti, meðal annars tónleikakjól sem hannaður var fyrir Björk og hárskúlptúr sem gerður var fyrir Medullaplötuna ásamt videoverkum, meðal annars samstarfsverkefni hennar og tónskáldsins Nico Muhly í The Kitchen í New York 2008. Verkin á sýningunni eru fjölbreytt en hún hefur vakið mikla athygli meðal annars fyrir þá skörun milli hönnunar, listar og handverks sem Hrafnhildur leikur sér gjarnan að.


Báðar sýningarnar standa til 29. maí.
Lokað á föstudaginn langa, páskadag og annan dag páska.
Allir velkomnir!