Sýningunni Ertu tilbúin frú forseti? hefur verið afar vel tekið af gestum safnsins og var fjölmenni á þeim tveimur leiðsögnum sem haldnar voru á Safnanótt. Við bjóðum nú upp á stuttar hádegisleiðsagnir á föstudögum út febrúar, fram að HönnunarMars. Leiðsagnirnar hefjast kl.12:10 og eru hálftíma langar.

Á sýningunni er sýndur fatnaður og ýmsir fylgihlutir fyrrum forseta Íslands, frú Vigdísar Finnbogadóttur, frá embættistíð hennar 1980-1996.

Á 16 ára farsælli forsetatíð sinni ruddi Vigdís ekki aðeins braut kvenna til nýrra metorða í vestrænum samfélögum, heldur stóð hún frammi fyrir því að móta hefð um klæðaburð fyrir konu í slíku embætti. Vigdís var alla tíð mjög eftirsótt og hún þurfti stöðugt að huga að klæðnaði fyrir ólík tækifæri, vinna sem bættist við annan eril í starfi forsetans og aðstoðarfólks hennar.

Á sýningunni gefst tækifæri til að kynnast þeim áherslum sem Vigdís lagði í fatavali og persónulegum minningum úr forsetatíð hennar. Varpað er ljósi

á ýmsar siðareglur og hefðir sem ríkja innan þess umhverfis sem þjóðhöfðingjar eru í, bæði í daglegum störfum sínum og þegar um opinberar heimsóknir er að ræða og sýnt úrval úr orðusafni okkar fyrrum forseta.

Bókaútgáfa

Í tilefni sýningarinnar gefur Hönnunarsafn Íslands út bók um fatnað Vigdísar. Í henni er grein eftir Dr. Karl Aspelund „Hví skyldum við skoða föt Vigdísar" þar sem hann veltir upp klæðamenningu út frá ímyndarsköpun og kynjahlutverkum. Að auki eru textar um fatnað sem Vigdís notaði á sögulegum stundum og þar fléttað inn persónulegum frásögnum hennar eða upplýsingum um siðareglur og orðuveitingar. Bókin er 80 bls. og prýdd fjölda mynda.

Verið velkomin

Safnið er opið þriðjud.- sunnud. frá 12:00-17:00. Safnbúð á jarðhæð er opin á opnunartíma safnsins.