Sunnudaginn 26. maí kl. 14 verða leiðsagnir um báðar sýningar safnsins.

Innlit í Glit

Inga Ragnarsdóttir myndlistarmaður mun ganga um sýninguna Innlit í Glit og segja frá starfsemi leirbrennslunnar Glit sem var stofnuð árið 1958. Sumir af okkar þekktustu leir- og myndlistarmönnum hófu starfsferil sinn í Glit og verður varpað ljósi á það vinnulag sem ríkti á verkstæðinu að Óðinsgötu og þær breytingar sem urðu við framleiðsluna eftir að fyrirtækið fluttist á Höfðabakkann um 1970.

Inga er dóttir Ragnars Kjartanssonar leirlistamanns en Ragnar var einn af stofnendum Glits og verkstjóri leirbrennslunnar allt til 1967. Inga hefur á síðustu árum rannsakað nýtingu íslenska leirsins og flutt fjölda fyrirlestra um þetta efni. Hún hefur staðið að sýningum á myndlistar- og leirlistaverkum föður síns auk þess sem hún er formaður Minningarsjóðs Ragnars Kjartanssonar. Inga Ragnarsdóttir vann að undirbúningi sýningarinnar sem lýkur þennan sama dag sem leiðsögnin fer fram.

Norræn hönnun í dag

Sýningin Norræn hönnun í dag sýnir nokkra af fremstu starfandi hönnuðum á Norðulöndunum í dag. Þeir hafa allir hlotið Torsten and Wanja Söderberg verðlaunin, sem eru stæstu hönnunarverðlaun sinnar tegundar og veitt árlega norrænum hönnuði. Hönnuðirnir eru Front, Harri Koskinen, Henrik Vibskov, Sigurd Bronger, Sigurður Gústafsson og Steinunn Sigurdardóttir.

Tveir hönnuðir segja frá verkum sínum á sýningunni. Steinunn Sigurðardóttir fatahönnuður og Sigurður Gústafsson arkitekt.

Sigurður hefur hannað fjölda húsgagna sem framleidd eru af sænska húsgagnaframleiðandanum Källemo. Þau eru unnin innan fjögurra hugmyndaramma og sköpunarferlið sjálft hvatt áfram af endalausri efahyggju. Sigurður sækir innblástur og form í listasöguna og afhjúpar í verkum sínum svæðið þar sem skörun listar og hönnunar elur af sér framúrstefnu nútímans.

Fatahönnun Steinunnar Sigurðardóttir vitnar um ríkan skilning og virðingu á handverkinu og eiginleikum efnisins. Steinunn hefur einatt sótt innblástur í íslenskt landslag og í hönnun sinni hefur hún lagt af mörkum aðdáunarvert norrænt framlag til hins alþjóðlega tískuheims.