Í Hönnunarsafni Íslands er verið að undirbúa yfirlitssýningu á leirlistaverkum Steinunnar Marteinsdóttur sem býr og starfar að list sinni að Hulduhólum í Mosfellsbæ. Steinunn á afar langan og farsælan feril að baki og hún er fyrir löngu orðin þekkt fyrir einkar glæsilegt og fjölbreytt framlag til íslenskrar leirlistarsögu. Verk Steinunnar má finna víða, svo sem  í opinberum söfnum og í einkasöfnum hér heima og í útlöndum.

Vegna undirbúnings sýningarinnar óskum við eftir því að einstaklingar og fjölskyldur sem eiga leirmuni eftir Steinunni hafi samband við safnið svo hægt verði að skrá til hlítar muni Steinunnar. Auðvelt er að þekkja leirmuni Steinunnar þrátt fyrir að verk hennar séu einstaklega fjölbreytt, en Steinunn merkir yfirleitt alltaf verk sín SM, S Mart eða Steinunn.

Sýningin verður opnuð snemma árs 2016. Best er að hafa samband við okkur með tölvupósti á netfangið honnunarsafn@honnunarsafn.is sem fyrst, og ekki síðar en 10. október. Nánari upplýsingar veitir starfsfólk Hönnunarsafnsins í síma 512 1525 á opnunartíma safnsins, þriðjudaga til sunnudaga kl. 12-17.