Sunnudaginn 29. maí lýkur sýningu Hönnunarsafns Íslands á húsgögnum Gunnars Magnússonar húsgagnahönnuðar. Sama dag lýkur sýningu á verkum Hrafnhildar Arnardóttur, Á gráu svæði. Sýningarnar höfða til fjölbreytts hóps unnenda íslenskrar hönnunar og menningarsögu og hafa verið mjög vel sóttar.

Á laugardaginn kl. 15 mun Ásdís Ólafsdóttir sýningarstjóri ganga með Gunnari um sýninguna á verkum hans og gefst gestum því kærkomið tækifæri til að hlusta á ýmsan fróðleik um íslenska húsgagnasögu og feril Gunnars, en hann er einn okkar afkastamesti húsgagna- og innanhússhönnuður. Í framhaldi af leiðsögn Ásdísar mun Harpa Þórsdóttir forstöðumaður Hönnunarsafnsins ganga um sýningu Hrafnhildar Arnardóttur og segja frá verkum hennar en hún hlaut nýverið hin virtu norrænu textílverðlaun sem verða afhent í Svíþjóð síðar á þessu ári.

Verið velkomin!