Sunnudaginn 12. maí kl. 14 mun Harpa Þórsdóttir forstöðumaður Hönnunarsafnsins ganga um sýninguna Innlit í Glit ásamt Sigríði Erlu Guðmundsdóttur leirlistakonu og spjalla um íslenska leirinn og reynslu Sigríðar af honum.

Frumherjar í íslenskri leirlistasögu á 20. öld áttu það allir sameiginlegt að vinna með íslenskan leir. Margar rannsóknir og tilraunir voru gerðar með leirinn og eiginleika hans. Oft enduðu þær með því að hætt var að nota íslenska leirinn vegna þess hversu erfiður hann var í mótun og brennslu í samanburði við innfluttan leir. Í Glit var lögð rík áhersla á að nota íslenskt hráefni og var unnið með íslenska leirinn frá stofnun leirbrennslunnar árið 1958 til um 1970-71.

Þegar komið var fram á áttunda áratuginn voru íslenskir leirlistamenn hættir að nota íslenskan leir og mál manna að hann væri ónothæfur. En sú hugsjón sem fylgdi leirtökunni hjá frumherjunum ruddi sér braut að nýju. Á síðustu árum hefur notkun á íslenskum leir færst í aukana. Þar ber sérstaklega að geta vinnu Sigríðar Erlu sem rekur keramikverkstæðið Leir 7 í Stykkishólmi. Sigríður vinnur með íslenskan leir frá Ytri-Fagradal á Skarðsströnd í Dalasýslu. Sigríður hefur í gegnum tíðina aflað sér mikillar reynslu og þekkingar á íslenska leirnum. Ásamt því að nota leirinn í eigin verk hefur hún unnið með og miðlað reynslu sinni til nemenda keramikdeilda MHÍ, Listaháskóla Íslands og Myndlistaskólans í Reykjavík. 
 
Verið velkomin!