Sunnudaginn 24. nóvember kl.14 verður Þóra Sigurbjörnsdóttir, fulltrúi hjá Hönnunarsafni Íslands, með fjölskylduleiðsögn um sýninguna Óvænt kynni. Byrjað verður á rannsóknarleiðangri um sýninguna þar sem húsgögnin verða gaumgæfð. Stólar verða skoðaðir frá ýmsum sjónarhornum, frá hlið, að ofan og jafnvel kíkt undir þá. Spáð verður í mjúk efni og hörð form. Hafa stólarnir eitthvað að segja okkur? Skiptir máli úr hvaða efni þeir eru gerðir? Hvaða form er að finna í stólunum? Hvaða litir eru í þeim? Getur stóll verið höfðinglegur? En fjörlegur? Getur hann verið leiðinlegur eða fyndinn?

Eftir rannsóknarleiðangurinn sköpum við okkar eigin stól sem unninn verður í pappír,vír og annað endurnýtanlegt efni.
Börn, og fullorðnir sem fylgja þeim, fá frítt inn.
Verið velkomin!

Sýningarstjórar sýningarinnar Óvænt kynni eru Arndís S. Árnadóttir og Elísabet V. Ingvarsdóttir.

Hönnunarsafn Íslands er opið alla daga frá 12—17 , lokað mánudaga.

Safnverslunin Kraum er opin á opnunartíma safnsins.