Á dögunum færði Steinunn Marteinsdóttir Hönnunarsafni Íslands veglega gjöf. Um er að ræða nokkurn fjölda leirmuna eftir Steinunni sem voru á yfirlitssýningu safnsins á verkum hennar fyrr á þessu ári. Meðal þeirra verka sem Steinunn gaf safninu eru stórir skúlptúrvasar, Jökulstef og Esjustef sem hún sýndi á fyrstu einkasýningu sinni á Kjarvalsstöðum árið 1975 og marka þáttaskil í íslenskri lista- og hönnunarsögu. Þessi verk eru lykilverk á ferli Steinunnar, þau sýna frumlega afstöðu gagnvart þeirri hefð sem hafði verið ríkjandi í íslenskri leirlist fram að þessum tíma. Með náttúrustefjum sínum mótaði Steinunn íslensk fjöll sem var nýmæli innan leirlistarinnar og vakti mikla athygli. Annar kjörgripur sem Steinunn færði safninu er hár vasi sem var sendur á stóra norræna farandsýningu í Bandaríkjunum árið 1980. Gjöfin til safnsins er nokkurs konar þversnið af ólíkum köflum Steinunnar í leirlistinni, elstu verkin eru frá því um 1960 þegar Steinunn kemur úr námi og nýjustu verkin í gjöfinni eru tveir vasar frá 2016.

Á myndinni eru Steinunn og Árni Bergmann ásamt Hörpu Þórsdóttur forstöðumanni safnsins og Þóru Sigurbjörnsdóttur sérfræðingi safnsins þegar tekið var við gjöfinni ásamt nokkrum gripanna.