12/06/15 - 28/02/17
Um sýninguna
- Að safna í söguna
Hönnunarsafn Íslands á fjölda geymilegra hluta og hefur brýna ástæðu til að sýna þá og gera þá eftirminnilega í þágu íslenskrar hönnunarsögu.
Geymilegir hlutir eru úrvalsmunir sem safnið varðveitir af ýmsum ástæðum. Hönnunarsafn Íslands hefur það mikilvæga hlutverk að marka sögu íslenskrar hönnunar með safneign sinni og stígur stór skref þessi árin. Lýsingarorðið geymilegur er lítt þekkt í dag. En gömul merking orðsins var sett í samhengi við gjafmildi og stórhug, eins og vitnað er um í tímaritinu Skírni árið 1913 á eftirfarandi hátt ,,…þá verður sá talinn mestur er mest gaf af geymilegum hlutum." Í þessari setningu liggur einmitt kjarninn í starfsemi Hönnunarsafnsins. Stór hluti safneignar safnsins er vegna gjafa, sem oft hafa borist með óvæntum hætti eða verið leitað eftir að fá til safnsins. Á sýningunni má finna frásagnir af því hvernig munirnir komu til safnsins eða af hverju þeir eru svo merkilegir, sem raun ber vitni, að þeim skuli safnað í söguna.
Sýningin er liður í því að veita innsýn í þá stöðugu vinnu sem starfsfólk safnsins sinnir: Að afla vitnisburðar um íslenska hönnunarsögu í safnið. Sýningin verður breytileg, eftir því sem safnið mun vaxa að safnkosti og geymilegum hlutum.
Verið velkomin!