13/03/13 - 26/05/13

Um sýninguna

Hönnuðirnir og hönnunarteymið Front (Svíþjóð), Harri Koskinen (Finnland),  Henrik Vibskov (Danmörk), Sigurd Bronger (Noregur), Steinunn Sigurðardóttir (Ísland) og Sigurður Gústafsson (Ísland) eiga það öll sameiginlegt að hafa á síðustu árum hlotið sænsku Torsten og Wanja Söderberg hönnunarverðlaunin sem eru meðal virtustu hönnunarverðlauna samtímans.

Leiðarljós sýningarinnar Norræn hönnun í dag, er að kynna úrval nýrrar norrænnar hönnunar á tímum sem einkennast af leit að nýjum einkennum og leiðum. Gömlum hefðum er ögrað eða þær endurmótaðar nú þegar norræn hönnun hefur átt velgengni að fagna í hálfa öld. Þessir hönnuðir sem eiga verk á sýningunni hafa gert tilraunir með nýjustu tækni og leitað leiða til að nýta þau tækifæri sem tölvutæknin hefur innleitt. Niðurstaðan er oft á tíðum óvænt sjónarhorn eða nýir notkunarmöguleikar og leikgleði og framúrstefnuleg nálgun er ómissandi hluti af nútímahönnun. Alþjóðavæðingin er að sama skapi snar þáttur í nútímahönnun en þessir hönnuðir sækja einnig innblástur til náttúrunnar og til þjóðlegra hefða og handverks á hverjum stað. Norrænn fúnksjónalismi og einfaldleiki hafa ásamt nýjum efnum, aðferðum og vinnuumhverfi víkkað út vettvang og viðföng hönnunar. Hönnunarheimurinn er alþjóðlegur og allir listamennirnir sem hér eiga verk beina sjónum sínum öðrum þræði þangað. Í þeirra hæfu höndum munu verða til nýir kaflar sem munu áfram stuðla að velgengni norrænnar hönnunar.

Sýningin er unnin í samstarfi við  Röhsska, hönnunarsafn Svía í Gautaborg.

Sýningarstjóri: Christoffer Tarras Blom