Á dögunum hélt Garðabær upp á 40 ára afmæli sitt með hátíðlegri dagskrá á Garðatorgi. Af þessu tilefni bauð Hönnunarsafn Íslands valinkunnum Garðbæingum að velja sér safngrip úr varðveislurýmum safnsins til að setja upp á safnmunasýninguna Geymilegir hlutir.
Sjö Garðbæingar mættu á tilsettum tíma og fylgdi starfsfólki safnsins um varðveislurýmin og fékk dálitla innsýn í verkefni starfsfólks. Á afmælisdaginn sjálfan var búið að stilla safngripnum upp ásamt stuttri frásögn sem skýrði af hverju viðkomandi valdi þann grip.