Á dögunum færði Auður Sveinsdóttir landslagsarkitekt Hönnunarsafninu forláta kaffistell úr smiðju Dieter Roth frá árinu 1960 er hann vann með Ragnari Kjartanssyni í Glit á Óðinsgötunni. Gamla Glit, eins og sagt er um þennan tíma hjá Glit, laðaði að sér unga listamenn sem störfuðu við að renna og skreyta leirmuni undir styrkri handleiðslu Ragnars, sem sá um listræna stjórnun fyrirtækisins. Dieter vann ekki lengi hjá Glit en þau verk sem hann vann eru eftirsótt á markaði enda mikil listaverk eins og kaffistellið í eigu safnsins ber vott um, það samanstendur af 7 bollum og undirskálum auk annarra fylgihluta.
Á myndinni er Þóra Sigurbjörnsdóttir frá Hönnunarsafninu ásamt gefandanum, Auði Sveinsdóttur.