Gunnar Magnússon er meðal afkastamestu og frumlegustu húsgagnahönnuða og innanhúss- arkitekta okkar og hefur markað djúp spor í sjónræna vitund og daglegt umhverfi margra Íslendinga. Á yfir fjörutíu ára starfsferli teiknaði hann húsgögn og innréttingar fyrir einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir, endurgerði hurð Alþingishússins, hannaði skákborðið fyrir „einvígi aldarinnar“, vann að hönnun innréttinga í skip og flugvélar, tók þátt í fjölda sýninga og kenndi um árabil við Iðnskólann í Reykjavík. Þar hafði hann sterk áhrif á komandi kynslóðir hönnuða og handverksmanna. Hann var sjálfur lærður húsgagnasmiður, hjá Guðmundi „blinda“ í Víði, og gat rætt við þá sem útfærðu húsgögnin hans af þekkingu, innsæi og sem „einn af hópnum“.