Harpa Þórsdóttir

Harpa Þórsdóttir forstöðumaður Hönnunarsafns Íslands mun ganga um sýninguna Hlutirnir okkar með safngestum. Á sýningunni eru valdir gripir úr safneign safnsins sem margir ættu að kannast við og þekkja, án þess þó að hafa velt því fyrir sér hver okkar hönnunarsaga sé. Söfnunarsvið safnsins er afar breitt og á sýningunni hefur verið lögð áhersla á að sýna íslensk húsgögn frá ólíkum tímabilum síðustu aldar ásamt því að nokkur dæmi um grafíska hönnun úr safneign safnsins eru sýnd, íslensk leirlist og nýleg íslensk vöruhönnun.


Safneign Hönnunarsafnsins samanstendur af rúmlega eitt þúsund gripum. Safnið leggur sérstaka áherslu á að safna íslenskum gripum en einnig má finna þekkta norræna og alþjóðlega hönnun í safneign safnsins.


Athugið að þetta er síðasta sýningarhelgi!

Lesa áfram

Í dag verða Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands veitt við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Eitt af verkefnunum sex sem valin hafa verið,  var unnið að tilstuðlan Hönnunarsafns Íslands, verkefni Örnu Rúnar Gústafsdóttur grafísks hönnuðar, sem hún vann undir leiðsögn Hörpu Þórsdóttur og Guðmundar Odds Magnússonar síðastliðið sumar. Verkefnið var valið í hóp 21 úrvalsverkefna fyrir nokkrum vikum og eftir nánara mat dómnefndar komst það áfram í flokk svokallaðra öndvegisverkefna, sem þýðir að verkefnið keppir um sjálf Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands.

Greining prentgripa fyrir safneignir, bókakápur og veggspjöld

Lesa áfram

Þann 11. október síðastliðinn hélt dr. Arndís S. Árnadóttir fyrirlestur um innréttingar og húsgögn Helga Hallgrímssonar húsgagnaarkitekts. Hönnunarsafn Íslands stóð að fyrirlestrinum með styrk úr Safnasjóði í tilefni þess að Helgi hefði orðið 100 ára þann 4. nóvember næstkomandi. Þennan dag barst safninu góð gjöf því Gunnar Magnússon húsgagnahönnuður og fjölskylda hans ákváðu að færa safninu í minningu Helga, eitt þekktasta húsgagn hans, ruggustól sem hann hannaði árið 1968 og smíðaður var í nokkrum tugum eintaka. Ruggustóllinn var meðal þess sem sýnt var á sýningu FHI 1968.

 

 

Lesa áfram

Arkitektafélag Íslands og Hönnunarsafn Íslands hafa undirritað samning um að safnið varðveiti samkeppnisgögn úr samkeppnum sem haldnar eru eftir reglum Arkitektafélags Íslands. Ekkert safn hefur áður haft það hlutverk að varðveita slík gögn hér á landi, en samkeppnisgögn veita, þegar frá líður, mikilvæga innsýn í starf einstakra arkitekta og arkitektastofa og bera vitnisburð um strauma og stefnur í byggingarlist. Heimildagildi í slíkum safnkosti er dýrmætt og með varðveislunni vilja bæði Arkitektafélagið og Hönnunarsafnið stuðla að aðgengi rannsakenda að slíkum gögnum, svo og faglegri meðhöndlun við varðveislu þeirra.

Lesa áfram

Síður

Subscribe to RSS - Harpa Þórsdóttir