Félag íslenskra gullsmiða heldur upp á 90 ára afmæli sitt á þessu ári og er sýningin Prýði unnin í samstarfi við félagið af því tilefni. Á sýningunni eru gripir eftir 40 gullsmiði sem voru gefnar frjálsar hendur að smíða fyrir sýninguna eða velja úr eigin safni. Gullsmiðirnir eru á ólíkum aldri, þeir sem unnið hafa við fagið í áratugi og byggt upp atvinnurekstur og tekið til sín lærlinga, svo og yngra fólk sem sýnir við hlið meistara sinna og hefur á síðustu árum skapað sér nafn og sérstöðu með þátttöku í fjölda sýninga og rekstri vinnustofa eða verslana.