Á baráttudegi kvenna, þann 8. mars blés Íslandsbanki til móttöku í tilefni HönnunarMars í einu af útibúum sínum. Vigdís Finnbogadóttir var sérstakur heiðursgestur og fékk afhent bindi af umfjöllunum dagblaðanna um sig frá forsetatíð sinni til dagsins í dag. Um leið lýstu Íslandsbanki, Veritas og fleiri fyrirtæki því yfir að þau ætla að styrkja vefsíðu um Vigdísi, í samvinnu við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, sérstaklega hvað myndefni varðar.
Af þessu tilefni var Hönnunarsafn Íslands beðið um að setja upp nokkrar af þeim flíkum sem eru hluti sýningarinnar ,,Ertu tilbúin frú forseti?“ en Hönnunarsafnið gerði þá sýningu sem stóð yfir í safninu frá febrúar 2014 til febrúar 2015. Sýningin stendur yfir í Minjasafninu á Akureyri og var fatnaðurinn tekinn af sýningunni í nokkra daga og fluttur til Reykjavíkur.