Stefnumótun stjórnar Hönnunarsafns Íslands hófst vorið 2015 að frumkvæði stjórnar og í samstarfi við forstöðumann safnsins og yfirmann fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar. Stefnumótuninni er ætlað að vera rammi fyrir starfsemi safnsins á næstu árum og skal hún unnin reglulega eins og kemur fram í reglum um starfsemi viðurkenndra safna á Íslandi.
Stjórn safnsins leggur áherslu á að safnið vinni á faglegan hátt að þeim markmiðum sem skilgreind eru í stefnumótuninni. Til undirbúnings við flessa vinnu var lögð fram stefnumótun stjórnar um Hönnunarsafn Íslands 2010–2014 ásamt ýmsum safnastefnum íslenskra og erlendra safna og áherslur sem safnaráð hefur bent íslenskum söfnum á að tileinka sér. Við vinnuna var stuðst við þá stefnu sem Garðabær hefur lagt fram um Hönnunarsafnið, sjá Stefna í menningarmálum í Garðabæ (2005), bls. 27. Siðareglur Alþjóðaráðs safna (ICOM) voru lagðar til grundvallar við gerð stefnumótunarinnar, svo og stofnskrá Hönnunarsafns Íslands frá 2013.
Hönnunarsafn Íslands er viðurkennt safn samkvæmt íslenskum safnalögum sem tóku gildi 1. janúar 2013. Stefnumótunin lýsir fjölbreyttum markmiðum safnsins á næstu árum en tekið skal fram að framkvæmd hennar er háð fjárveitingum hvers árs. Til marks um þann metnað sem ríkir um starfsemi safnsins til kröftugrar uppbyggingar á næstu árum fylgir aðgerðaáætlun þessari stefnumótun. Í aðgerðaáætlun kemur fram kjarni hvers verkefnis og með hvaða leiðum er stefnt að því að ná fram settum markmiðum.