Safniðáröngunni
01.07.2024–29.09.2024

SkráningáverkumGíslaB.Björnssonar

Skissur og teikningar af verkum Gísla B. Björnssonar, ásamt skjölum, bréfum, ljósmyndum og heimildum bárust safninu að gjöf árið 2013. Tilgangur vinnunnar sem fer fram í Safninu á Röngunni þessu sinni er að flokka og skrá gjöfina í safneign safnsins. Gestir geta fylgst með þegar hlutir eru teknir upp úr kössum, ljósmyndaðir, skráðir í safnmunaskrá og loks pakkað til varðveislu. Skráning er spennandi ferli sem víkkar sjóndeildarhringinn, kveikir neista og tengingar, hugmyndir, samtöl og minningar.

 

Gísli B. er einn atkvæðamesti grafíski hönnuðurinn í íslenskri hönnunarsögu á 20. öld. Hann stofnaði auglýsingastofu Gísla B. Björnssonar þegar hann kom úr námi frá Þýskalandi árið 1961, ári síðar stofnaði hann sérdeild í auglýsingateiknun við Myndlista- og handíðaskólann sem í dag er braut grafískrar hönnunar í Listaháskóla Íslands og hefur hann kennt óslitið í fimm áratugi. Á langri starfsævi hefur Gísli unnið að markaðs- og ímyndarmálum fjölda fyrirtækja og stofnana ásamt því að hafa hannað sjálfur mörg þekkt merki fyrirtækja, félagasamtaka og stofnana eða í samvinnu við samstarfsfólk sitt. Gísli hefur hannað og sett upp fjölda bóka og gert bókakápur, hannað auglýsingar á prenti og auglýsingar í sjónvarpi. Verk og vinnuaðferðir Gísla hafa haft mikil áhrif á þróun grafískrar hönnunar hér landi. Vandvirkni og sjálfsgagnrýni hafa ávallt verið leiðandi stef í allri vinnu Gísla, þetta eru grunngildi sem þarf til að skapa góða og ábyrga hönnun.

Umsjón með skráningunni hafa Katla Einarsdóttir og Una María Magnúsdóttir.

Verkefnið hlaut styrk úr Safnasjóði og frá auglýsingastofunni Hvíta Húsinu