Sýning
02.03.2021–30.08.2021

SVEINNKJARVAL
Þaðskalvandasemlengiástanda

Á sýningu á verkum Sveins Kjarvals (1919–1981) í sýningarsal Hönnunarsafns Íslands er sjónum beint að mikilvægu brautryðjendastarfi hans hér á landi á sviði húsgagna- og innanhússhönnunar um tveggja áratuga skeið (1950–1970). Þá bárust hingað ríkjandi hugmyndir um nútímaleg og skynsamleg húsakynni þar sem húsgögn áttu umfram allt að vera einföld, létt og hentug og gerð úr efnivið sem fengi að njóta sín án nokkurs skrauts.

Sveinn var afkastamikill hönnuður innréttinga í nútímastíl fyrir verslanir, veitingahús og opinber rými sem tískusveiflur og nýjar kröfur í tímans rás hafa nú að mestu afmáð. Þær hafa hins vegar varðveist í ljósmyndum og teikningum sem til sýnis verða á sýningunni, Hann var vinsæll innanhússhönnuður og kom að hönnun fyrir á annað hundrað heimili en teiknaði einnig húsgögn eftir pöntunum. Húsgögn Sveins Kjarvals hafa staðist vel tímans tönn en stefna hans var ætíð að vanda það „sem lengi á að standa“. Húsgögn hans frá þessum tíma leynast enn á íslenskum heimilum og ljóst er að þau eiga erindi við samtímann.
Húsgögn Sveins úr safneign Hönnunarsafns Íslands eru meginuppistaðan í sýningunni en safnið nýtur jafnframt velvildar einstaklinga sem lána verk. Sveinn tileinkaði sér jafnan þann íslenska efnivið sem fyrir hendi var — notaði nær eingöngu íslensk ullaráklæði og skinn á stóla og var líklega einna fyrstur til þess að nota íslenskar bergtegundir í innanhússhönnun hér á landi.
Sýningunni er ætlað að styðja söfnunarmarkmið Hönnunarsafns Íslands á sviði húsgagna- og innanhússhönnunar og er framlag til miðlunar sögu hönnunar á Íslandi.

Sýningarstjórar: Arndís S Árnadóttir (texti) og Þórunn S. Þorgrímsdóttir (hönnun)

Sýningin hlaut styrk úr Safnasjóði og frá Epal.

Ljósmyndir: Vigfús Birgisson

SÝNINGARTEXTI

SVEINN KJARVAL — Það skal vanda sem lengi á að standa

Hönnunarsafn Íslands kynnir hér verk Sveins Kjarvals (1919–1981) húsgagna- og innanhússarkitekts. Hann naut mikilla vinsælda á því tímabili sem nútímaleg hönnun var að festa sig í sessi hér á landi eftir miðja 20. öld og bera verk hans þess merki. Hann ólst upp í Kaupmannahöfn og eftir sveinspróf í húsgagnasmíði frá verkstæði Jacobs Kjær þar í borg settist hann að í Reykjavík árið 1939. Eftir stríð lauk hann framhaldsnámi við húsgagnadeild Kunsthåndværkerskolen í Kaupmannahöfn og gerðist ötull talsmaður fyrir að einföld, smekkleg og hentug húsgögn prýddu íslensk heimili.

Um tveggja áratuga skeið var hann afkastamikill hönnuður innréttinga fyrir veitingahús, verslanir, fyrirtæki og önnur opinber rými eins og kirkjur, bókasöfn og sjúkrahús sem tískusveiflur og nýjar kröfur í tímans rás hafa nú afmáð að mestu. Sveinn var vinsæll ráðgjafi fjölda einstaklinga um húsgögn og innanhússhönnun og heimilishúsgögn hans — stólar og borð af ótal gerðum, hillur og skápar þar sem allt þurfti að komast fyrir í samræmi við mælingar á því sem geyma átti — munu halda nafni hans á lofti um ókomna tíð.

Húsgögn Sveins Kjarvals úr safneign Hönnunarsafns Íslands eru hryggjarstykkið í þessari sýningu en andanum sem bjó í horfnum innréttingum hans eru hins vegar gerð skil á ljósmyndum og teikningum sem varðveist hafa.

HÖNNUN OG EFNISNOTKUN

Sveinn tók ástfóstri við Ísland. Hann naut þess að ferðast um landið, unni íslenskri náttúru og stundaði lax- og silungsveiðar í ám og vötnum.

Hann var hrifinn af öllu sem íslenskt var, jafnt gömlum, lúnum og handgerðum gripum sem og íslenskum bergtegundum sem hann notfærði sér innanhúss sem utan. Hann teiknaði mögnuð opin eldstæði úr grjóti sem sótt var upp til fjalla og niður í fjöru og endurvakti anda fyrri tíma með þiljuðum loftum og skinnklæddum sætum.

Í húsgögn og innréttingar notaði hann hins vegar innfluttan trjávið, til dæmis eik, mahóní, hnotu, tekk og furu — en það er skiljanlegt, í nær skóglausu landi. Hann var einnig óhræddur við að glíma við önnur efni eins og stál og plast. Aðalatriðið var að efniviðurinn átti að njóta sín án skrauts. Húsgögn, í beinni merkingu þess orðs, áttu að vera „til gagns í húsi“ — hentug og nytsamleg, en líka léttbyggð, íburðarlaus og umfram allt nútímaleg.

Hann var sjálfur góður fagmaður í húsgagnasmíði en naut líka samvinnu við aðra fagmenn og verkstæði, hvort sem um var að ræða fínsmíði, bólstrun, klæðagerð eða málmsmíði. Hann starfaði með bestu húsgagnaverkstæðunum og notaði yfirleitt íslensk ullaráklæði á stóla og sæti sem framleidd voru í klæðaverksmiðjunum Álafossi og Gefjuni en einnig í minni vefstofum sem konur ráku. Hann notfærði sér snilld íslenskra málmsmiða við smíði lampa og annarra smáhluta eins og höldur á skápa og hulstur á stól- og borðfætur. Í allri hans innanhússhönnun var lýsing afar mikilvæg og nær alltaf var lifandi gróður til staðar — en sjálfur safnaði hann kaktusum.

BORÐSTOFUBORÐIÐ

Heppilegasta stærðin á borðinu er 120×90 sm. Þeir, sem sitja við borðið, þurfa 60 sm olnbogarúm hver. Þetta borð er því fyrir 6 manns undir venjulegum kringumstæðum. Og ef hægt er að stækka það um helming, við báða enda, getur það rúmað 8─10 manns.                                                                                                                  (Sveinn Kjarval, „Húsgögn í 3000 ár“, Melkorka 1952)

Einfalt og látlaust borðstofuborð

Þegar koma þarf borðstofuhúsgögnum fyrir þýðir ekkert að einskorða sig við gömlu borðstofuhugmyndina. Ef borðið er sett út á mitt gólf, þá er búið að koma í veg fyrir, að unnt sé að skapa fallega heild.

Þess vegna verður að reyna að koma því fyrir út við vegg, eða í horni. Borðið getur húsmóðirin notað sem vinnuborð, við saumaskap og annað. Og þess vegna er það óheppilegt, ef borðið er skrautlegt og glanspólerað. En það er síður en svo, að einfalt og látlaust borðstofuborð þurfi að vera ljótt.

(Sveinn Kjarval, „Húsgögn í 3000 ár“, Melkorka 1952)

 

NÝTT KERFI HLUTA      RAÐSÓFINN

Heimilin tóku stakkaskiptum á sjötta áratugnum þegar þungu húsgögnin, sem mannafla þurfti til að flytja, viku fyrir þeim léttari. Samstæð húsgagnasett hörfuðu smám saman fyrir raðhúsgögnum, raðsófum og hillusamstæðum. Á sjöunda áratugnum komu fram á sjónarsviðið einskonar „raðkerfi hluta“ — húsgagna sem hentuðu betur til fjöldaframleiðslu.

Raðsófi Sveins Kjarvals kom fram um 1960. Sjáanleg og einföld grind eininganna var gerð úr afrórmósíuvið (líkist tekki – stundum nefnt gulltekk) og voru grindurnar framleiddar á húsgagnaverkstæðum í Reykjavík allt fram á áttunda áratuginn. Mjög var vandað til bólstrunar sætanna í samræmi við lögun mannslíkamans.

Raðsófinn var fáanlegur sem einsæti, tvísæti, þrísæti eða horn og þegar átak var gert eftir 1964 til að kynna framleiðsluna hafði stökum borðum verið bætt við húsgagnalínuna — og til urðu SK—raðhúsgögn.

Með raðsófanum var vandinn leystur á ýmsan hátt. Hann gaf ótal nýja möguleika. Hann gat verið frístandandi og þannig skipt stofunni í aðskilin svæði  – einnig settur í horn eða fyrir framan glugga til að njóta útsýnis. Það var reyndar hægt að raða honum „á hvern þann hátt sem bezt hentar“ eins og ein auglýsingin hljóðaði á þessum tíma.

ANDINN BÝR Í INNRÉTTINGUNUM

Sveinn Kjarval varð fljótt eftirsóttur hönnuður fyrir verslanir, veitingahús og ýmis opinber rými í Reykjavík og víða um land. Í Austurstræti, Bankastræti, upp allan Laugaveginn og á Skólavörðustíg í Reykjavík mátti sjá glæsilegar verslunarinnréttingar í tugatali sem Sveinn hannaði í léttum nútímastíl. Þær eru allar horfnar en teikningar og ljósmyndir hafa varðveist. Hann lagði jafnan áherslu á léttleika, náttúrulegan efnivið, opnar hillur og áberandi léttbyggð afgreiðsluborð. Alls staðar var góð óbein lýsing og lifandi gróður og að utanverðu notfærði hann sér gjarnan neonskilti sem var nýjung þess tíma.

Yfir innréttingum hans ríkti ákveðin hlýlegur andi sem margir minnast. Eitt þekktasta verk hans er veitingahúsið Naust við Vesturgötu 6–8 sem var starfrækt í yfir 50 ár (1954–2006). Þar breytti hann 19. aldar fiskverkunar- og verslunarhúsnæði í veitingastað sem átti að minna á sjósókn og útgerð en ætlunin var að matreiða þar aðallega fiskrétti. Sveinn hannaði aðalrýmið sem skipsskrokk með sterklegum burðarbitum í lofti og þiljuðum veggjum með sandblásnum, sýruþvegnum og lökkuðum furuborðum sem minntu á skipsbyrðing. Andinn var líkt og gestir væru staddir um borð í gömlu, traustu skipi.

Andinn sem ríkti á Kaffistofunni Tröð í Austurstræti 18 (1963–1977) er einnig mörgum minnisstæður. Sigurður Pálsson rithöfundur sótti staðinn á menntaskólaárum sínum og lýsti honum af alúð í Táningabók (2014):

„[…] Úr anddyri húss Almenna bókafélagsins við Austurstræti lá hringstigi upp á aðra hæð, þar leyndist Tröðin. Kálfskinn á bekkjum, bæði setu og baki, einnig á stólunum […]  Sveinn Kjarval, sonur málarans, hannaði innréttingar og húsgögn. Afburðamaður í sinni grein, honum hefur ekki verið sýndur viðunandi sómi. Á bekkjunum sátum við menntaskólakálfarnir, þótti þá sumum sem fullskipað væri kálfum á Café Tröð. Við vorum klaufaleg, skrykkjótt í hugsun og tilfinningum eins og táninga er siður, reyndum að hreykja okkur yfir eigin aldur með yfirlæti unglingsins, háðsglósum og spælingum. En innst inni titruðum við.“