Opnun
01.04.202518:00

BrynjarSigurðarsonSkáldaðlandslag

Verkefnið sprettur upp úr tilraunum við að kanna nýjar leiðir til að teikna form og hluti utan hefðbundinna hönnunarforrita. Einkum er notast við forrit sem aðallega er notað við sköpun avatara fyrir tölvuleiki. Forritið gerir kleift að vinna með form í tölvunni líkt og að móta í mjúkan leir. Þessar tilraunir hafa orðið að stíl sem Brynjar kallar Animated Geology sem mætti þýða sem “Skáldað landslag”. Hann hefur nú þegar hannað postulínsvasa fyrir Galerie Kreo í París með þessari aðferð en hér beitir hann aðferðinni til að gera lágmyndir í við.

Formin líta út fyrir að vera mitt á milli þess að vera stafræn og lífræn. Stundum virðast andlit eða jafnvel andar faldir í formunum en stundum líkjast þau náttúrulegri áferð en með teiknimyndalegu yfirbragði.

Viður hefur gjarnan verið notaður sem efni fyrir skreyti og lágmyndir af ýmsu tagi. Á Íslandi voru mynstur skorin út í rúmfjalir og á aska. Í Evrópu á tímum listastefnunnar Art Nouveau voru lífræn mynstur tálguð og skorin sem hlutar af stigahandriðum, hurðum og húsgögnum. Aftur á móti hefur lítið verið kannað að færa stafrænan formheim af skjánum yfir í hefðbundin efni eins og við.

Tölvufræsarinn formar viðinn á ógnarhraða. Þannig kemur teikningin sem gerð er í tölvunni fram í viðar planka. Hver teikning á samtal við eiginleika og sögu hvers planka þar sem kvistar og vaxtarlínur viðarins gefa myndunum nýja vídd.

Sýningin er hluti af HönnunarMars 2025.