Á undanförnum árum hefur súrdeigsbakstur notið sífellt meiri vinsælda. Þó að það geti í fyrstu hljómað flókið þá er í raun sáraeinfalt að baka úr súrdeigi. Í þessari smiðju mun Ragnheiður Maísól Sturludóttir leiða gesti inn í töfraheim súrdeigsbaksturs. Farið verður yfir helstu þætti bakstursins, hvernig á að hugsa um og viðhalda súrdeigsmóður og hvaða tæki og tól þarf og þarf ekki að eiga. Gestir læra helstu handtökin við að baka einfalt og bragðgott súrdeigsbrauð heima hjá sér auk þess sem farið verður yfir hversu fjölbreyttar og ólíkar uppskriftir baka má úr súrdeigi. Að smiðjunni lokinni geta öll sem vilja fengið með sér afleggjara af súrdeigsmóður ásamt uppskriftum með sér heim til þess að geta byrjað að baka sín eigin súrdeigsbrauð.
Athugið að smiðjan hefst kl. 13:00 og stendur til 14:30 en gestir þurfa að vera komnir kl. 13:00 til þess að taka þátt.
Ragnheiður Maísól er þjóðfræðingur og listakona sem hefur bakað úr súrdeigi í yfir 11 ár. Hún hefur lengi miðlað handtökum í súrdeigsbakstri, bæði í gegnum námskeið og samfélagsmiðla. Lokaverkefni hennar í þjóðfræði fjallaði um súrdeigsbakara á Íslandi en hún er einnig sýningarstjóri sýningarinnar Örverur á heimilinu sem nú stendur yfir á Hönnunarsafninu.