Pallurinn
06.09.2024–27.10.2024

Ull

Raunveruleikinn og óraunveruleikinn mætast í verkum Judith Amalíu Jóhannsdóttur og Maju Sisku.

Maja Siska leggur áherslu á sjálfan efniviðinn og handverkið. Hún vill að við skynjum í þaula það sem við nemum með bæði augum og höndum. Sömuleiðis vill hún að finnum hvaðan efniviðurinn kemur og hvernig hann hefur verið unninn. Hér er sjálft vinnuferlið sett á oddinn.

„Í þýsku er til orðið „begreifen“ sem þýðir bæði að snerta og skilja. Ég tengi sterkt við það.“

Judith Amalía er hugfangin af óskastundinni, augnablikinu þegar gáttir opnast úr hversdagsleikanum inn í veröld drauma og ævintýra. Kórónur og töfrastafir eru hefðbundin ævintýratákn. Uppistaða verkanna er annars vegar handspunnin ull sem verður til í óútreiknanlegu flæði og hins vegar blúnduprjón þar sem hver lykkja er hamin samkvæmt fyrirfram ákveðinni forskrift. Með þessu myndast spenna milli tveggja andstæðna, hversdagsleikans og töfranna.

 

Judith Amalía Jóhannsdóttir er fædd og uppalin á Ísafirði og starfar sem textílhönnuður og handavinnukennari. Hún lærði búningahönnun við Brera akademíuna í Mílanó og starfaði sem búningahönnuður í íslenskum leikhúsum um skeið. Hún lauk námi í textílhönnun við Myndlistaskólann í Reykjavík árið 2020. Hún hefur sent frá sér kennslumyndbönd um handavinnu undir yfirskriftinni Textíll í mynd. Árið 2012 stofnaði hún jógafatamerkið Atala í félagi við tvær aðrar. Judith Amalía hefur sérstakan áhuga á möguleikum íslensku ullarinnar. Hún beinir sjónum að íslenskri handverkshefð og stöðu hennar í samtímanum. Þráðurinn er lykilform í verkum Judithar og í þeim er leitast við að spinna þræði úr ólíkum hráefnum. Hún er búsett í Reykjavík.

Maja Siska, fædd og uppalin í Þýskalandi,  útskrifaðist með mastersgráður í arkítektur frá Arizona State University árið 1996. Hún hefur hlotið styrki meðal annars til þáttöku í Écoles d´Arts Americaines, Fontainebleau í Frakklandi, hefur stundað ljósmyndun, oliumálun og handspuna í fjöldamörg ár. Hún var stofnandi listamannahópsins ART 11 í Kópavogi. Hún er meðlimur í SÍM siðan 2009 og hefur einbeitt sér að textíl síðan 2014. Hún er í hópnum Spunasystur og Þingborg Ullarvinnsla og er viðburðastjóri fyrir Ullarvikuna. Hún hefur haldið fyrirlestra um sögu- og menningarlegt mikilvægi ullarinnar á Íslandi, bæði erlendis og hér heima.